Fæðingasagan mín

Ég las mikið af fæðingasögum á meðgöngunni og mér fannst það nýtast mér ótrúlega vel. Hver fæðing er ólík og það er áhugavert og fræðandi að lesa hvernig konur upplifa sína fæðingu. Ég vildi því deila minni reynslu með ykkur.
Heilt yfir vil ég ráðleggja öllum að gera ekki ráð fyrir neinu og ekki vera hafa áhyggjur af fæðingunni. Ekki hafa áhyggjur af einhverju sem ekki er orðið – ekki hafa áhyggjur af þetta og þetta gæti gerst þá ertu búin að eyða orku í eitthvað sem verður svo aldrei. Hinsvegar ekki heldur svekkja sig ef fæðingin verður ekki nákvæmlega eins og þú hélst að hún mundi verða. Allt í lagi að hafa plan eða óskir en ef það gengur ekki upp þá er það líka allt í lagi.
Ég var búin að vera með samdrætti allan sólahringinn í fimm og hálfa viku þegar stundin rann upp 30. ágúst 2017. Eins og mig grunaði, þá áttaði ég mig alls ekkert á því að fæðingin væri á næsta leiti þar sem verkir með samdráttunum höfðu aukist jafnt og þétt. Oft var ég með verki í klst, eða allan daginn, stundum með hverjum samdrátt stundum öðru hvoru – en alltaf voru samdrættirnir til staðar.
Við vorum búin að vera með gesti um kvöldið, vinafólk kom með mat og borðuðum saman einning kíktu tengdó við. Við ætluðum að klára að filma eldhúsið sem við vorum búin að vera að breyta (dæmigert fyrir hreiðurgerð – gera allt fínt áður en barnið kemur). En þegar allir voru farnir sagði ég við Jón að ég þyrfti aðeins að leggjast niður fyrst – ekkert öðruvísi en flesta daga. Sterkir verkir með hverjum einasta samdrætti byrjuðu þetta kvöld sirka 21.45. Klukkutíma síðar var þetta óbreytt og ég sagði að við yrðum að filma á morgun, ég þyrfti að hvíla mig. Svo 90 mín eftir þetta byrjaði og enn voru svona sterkir verkir með öllum samdráttum – ég gat ekki talað með þegar þeir voru hvað verstir, þá ákvað ég að hringja í ljósu og spyrja hvað ég ætti að gera.
Mig langaði helst að fara að sofa, ég var svo þreytt.
Ljósan var ekki viss heldur hvort eitthvað væri í gangi, erfitt að meta alveg í gegnum símann. Meðan ég talaði við ljósuna fékk ég samdrátt og hún sagði “jú þetta er nú nokkuð sannfærandi, kíktu til okkar og þá ferðu kannski bara aftur heim og leggur þig ef ekkert er í gangi”.
Við tókum okkur til, fórum með hundinn í pössun og vorum komin upp á HSu (heilsugæslan á Selfossi) rúmlega miðnætti.
Ég vildi eiga á Selfossi og hlustaði á Grace (meðgöngujógadiskinn) á leiðinni og reyndi að syngja með eins mikið og ég gat og slaka á. Nota öndunina sem ég lærði í meðgöngujóga og aðallega að hugsa um að slaka á grindarbotnsvöðvum og í líkamanum. Það var gott þegar við vorum komin á HSu, við vorum stressuð að þegar kæmi að stóru stundinni að við mundum ekki ná á Selfoss.
Við röltum inn, tókum ekki töskuna með okkur inn, því við vorum alls ekkert viss um að það væri eitthvað í gangi.
Eftir skoðun kemur í ljós að ég er komin með 3,5 í útvíkkun og stelpan enn óskorðuð. Ljósan sagði að við gætum farið heim og hvílt okkur í nokkra klst ef við vildum en stelpan væri örugglega að fara að koma seinna í nótt. Ég sagðist frekar vilja vera þarna.
Ég fékk verkjalyf til að reyna slá á verkina svo ég gæti sofnað smá, ég var svo þreytt. Það virkaði ekkert og ekki möguleiki á að sofna. Svo var allt óþægilegt, ég var búin að biðja um að fá að fara í bað og langaði að eiga í baðinu. Ljósan talaði um að ég ætti ekki að fara of snemma í baðið en kl. 2 bað ég um að fá að fara í bað, það væri allt svo óþægilegt, hún ath þá hver útvíkkunin var og var ég þá komin með 7,5. Þetta var að ganga mun hraðar en hún hafði haldið svo það var farið að láta renna í baðið. Það tók smá stund og vá hvað það var gott að komast í baðið. Síðasti 0.5 cm var lengur en venjulega að koma í útvíkkuninni þar sem hún var ekki enn skorðuð og vatnið ekki enn farið. Svo ljósan sprengdi belginn og á sömu mínútu var fullri útvíkun náð og rembingurinn byrjaði. Ég kláraði sem sagt útvíkkunina á 3 klst eftir ég kom á sjúkrahúsið.
Ljósan var búin að segja við mig að ég mætti ekki rembast strax. Við vildum að hún kæmi rólega og rétt niður – þar sem hún var ekki enn skorðuð. Ef hún kæmi of hratt væru líkur á að hún kæmi skakkt niður með höfuðið einnig meiri líkur á að rifna. Það var mun erfiðara að að rembast ekki, því þetta er ekkert sem ég ákveð að gera. Maginn (legið) herpist bara saman. Í raun væri mögulega hægt að líkja þessu við að þegar maður ælir – þú stoppar það ekkert þegar það byrjar. Mín helsta leið var að öskra til að hleypa kraftinum einhversstaðar út.
Einhvern tíma á þessum tímapunkt segir ljósan “ég ætla að hlaupa og ná í ungabarnasængina.“ Það var ekki fyrr en þá sem ég almennilega áttaði mig á að litla stelpan væri að koma. Ég sagði meira að segja við Jón “hún er að ná í sæng fyrir stelpuna okkar sem kemur bráðum” mig langaði helst til að fara að gráta af spenningi, tilhlökkun, geðshræringu og allt í bland.
Það gekk rólega að koma henni niður svo ég breytti um stellingar fyrst var ég á bakinu í baðinu, svo á hækjum mér, svo á 4 fótum, svo aftur á bakinu og togaði í handklæði á móti ljósunni, svo standandi og það endaði með að ég fór úr baðinu. Ég spurði reglulega, hvort allt væri eðlilegt, ég var hrædd um að eitthvað færi úrskeiðis. Hún fullvissaði mig um það og hún fylgdist líka náið með hjartslættinum sem var allan tímann mjög góður. Ekki að heyra að þetta hafði nein áhrif á litlu.
Næst stóð ég svo hangandi við rúmið, var svo með íþróttabolta fyrir framan mig, hékk á Jóni Steinari (standandi), var hangandi í rólu (ég vissi ekki einu sinni að róla væri notuð í fæðingar) þá fór eitthvað að gerast en ég var orðin svo þreytt að ég gat ekki staðið lengur og settist næst á fæðingastól. Jón Steinar sat fyrir aftan mig og hélt utan um mig. Ég hélt í hendurnar á honum og hann togaði á móti → til að veita mótspyrnu. Ég fékk góðar harðsperrur í bakið/hendurnar eftir allt þetta tog. Ég held að aðal ástæðan að þessi staða gekk best var að Jón var svo með mér í þessu. Þarna var ég búin að vera rembinginn í 1,5 klst og ég var orðin mjög máttlaus. Ég var með íþróttadrykk með nóg af sykri sem kom sé vel á þessu augnabliki.
Samdrættirnir voru farnir að vera í styttri tíma og lengra á milli. Til að örva samdrættina virkaði vel að nudda geirvörturnar.
Þegar sáraukinn var sem verstur hvatti ljósan mig áfram og sagði “já, einmitt svona” en mig langaði ekki að rembast svona það var svo vont. Ég hugsaði að ég gæti ekki meira og ég skildi svo vel þær konur sem fá allar deyfingar. Ég sagði samt ekki upphátt að ég gæti ekki meira, því ég vissi að það væri enginn annar að fara að klára þetta. Ég yrði að harka af mér aðeins lengur. Það hvatti mig aðeins áfram þegar hún leyfði mér að finna kollinn. Þetta var samt svo erfitt,mér fannst ég vera “liðmótalaus” af þreytu.
Ljósan sagði “það er ekki meira en svona 6 mínútur í að hún komi alveg, ég heyrði það ekki, ég var í einhverju móki en Jón hvíslaði í eyrað “heyrirðu það Fjóla, hún verður komin eftir 6 mín” þá fann ég kraft og bara “okay, nú klárum við þetta, ég get þetta” ekkert ósvipað og maður peppar sig upp fyrir síðasta erfiða sprett í interval æfingu. Svo kom rembingur og ljósan sagði “já, hún er að koma, taktu á móti henni” og ég skildi ekki hvað hún var að meina “já, komdu með hendurnar, hún er að koma” ég hallaði mér þá aðeins fram og sá hana koma, tók sjálf á móti henni og setti hana strax á upp á bringuna. Það var æðislegt að taka svona sjálf á móti henni.
Vá hvað mér var létt að ég var búin að koma henni í heiminn án allra inngripa og hún byrjaði strax að gráta. Fyrsta sem ég sagði var “vá hvað hún er stór”. Svo spennti hún strax greipar, eins og hún væri að biðja – mjög krúttlegt.
Stóra stelpan okkar var mjög hraust og tók brjóstið strax. Það kom mér á óvart hvað það var mikill léttir að fæða/losna við fylgjuna. Einhvern veginn miklu meiri léttir að losna við hana en að fæða sjálft barnið.
Stelpan kom sem sagt í heiminn aðeins 5 klst eftir að ég koma á HSu. Það var ágætt að ég fór ekki heim að hvíla mig hehe. Ég missti nánast ekkert blóð eða aðeins 200 ml. Það þurfti ekkert að sauma spöngina og held að þessi tveir þættir ásamt að vera í góðu líkamlegu formi hafi allt að segja hvað ég var fljót að jafna mig eftir fæðinguna.
Ég vanmat samt aðeins hvað ég var þreytt og var að fá aðeins of mikið af heimsóknum fyrstu dagana. Ég þarf að leggja mig 1x á dag, enda er maður að vakna á nóttunni. Einnig þarf líkaminn að hvílast eftir svona átök, ekki bara 1 dag, þetta tekur tíma.
Varðandi þyngdaraukningu á meðgönguna þá þyngdist ég um 15,5 kg. Það er talað um að það er yfirleitt lítil þyngdaraukning fyrst þar sem fóstrið er svo lítið og þarf lítið. Svo á öðrum hluta meðgöngunar stækkar barnið hratt og er mesta þyngdaraukningin þá. Undir lokin hægist svo á þyngdaraukningunni og sumar konur léttast jafnvel. Þetta var ekki svona hjá mér, ég var búin að þyngjast um 9 kg þegar ég var komin 26 vikur, eftir það þyngdist ég eiginlega ekkert næstu 10 vikurnar. Það var svo ekki fyrr en ég átti 3 vikur eftir að ég þyngdist aftur um 1 kg á viku.
Strax eftir fæðingu var ég búin að léttast um 6 kg. Barnið var 4080 gr, svo er það fylgjan og vökvi sem maður missir. 6 dögum eftir fæðingu var ég búin að léttast um 10 kg.
Ég hafði áhyggjur af því að ég væri að léttast of hratt, ég er með frekar hraða brennslu og hef þurft að fylgjast með því að vera ekki of lág í fituprósentu. Ekki er það því að ég borða ekki nóg, enda þeir sem þekkja mig skilja ekki hvert maturinn fer – enda hef ég t.d alltaf borðað meira en Jón Steinar.
Ég spurði því ljósuna mína hvað væri eðlilegt og hún sagði að þetta væri misjafnt eins og hvernig þyngdaraukninginn dreifist á meðgönguna. Þó það taki yfirleitt einhvern tíma þá sagði hún að það eru alveg dæmi um að sumar konur ná sinni fyrri þyngd á aðeins 10 dögum. Mikilvægt er að maður sé vel nærður og sé ekki að svelta sig. Ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur en ætti að passa að fara ekki undir mína fyrri þyngd. Til að auka við hitaeiningar er ég orðin nokkuð góð í því enda ekki nýtt “vandamál”. Ég er með þurrkaða ávexti á borðinu sem ég er að grípa í (líka gott fyrir meltinguna eftir fæðingu að borða t.d sveskjur og döðlur), fá mér epli með hneusmjöri og avacado á samlokur/hrökkbrauð. Það er mikilvægara nú en áður að ég sé að bæta við hollri fitu og hitaeiningum þar sem meltingin er viðkvæmari eftir barnsburð og litla er líka að borða allt sem ég er að borða.
Myndin til hliðar er tekin 8 dögum eftir fæðingu.