Mín reynsla af meðgöngusundi

Ég byrjaði í meðgöngusundi í Grensáslaug þegar ég var komin 33 vikur og náði einni viku áður en 4 vikna sumarfrí byrjaði. Eftir sumarfríið var ég þá komin 38 vikur. Það var mikill munur á mér fyrir og eftir sumarfríið. Mig langar að deila með ykkur hvað meðgöngusundið hefur gert fyrir mig.
Ef ég dreg saman hverjir eru helstu kostirnir sem mér finnst vera við meðgöngusundið er það:
- Fjölbreyttar æfingar
- Nytsamlegur fróðleikur um líkamann og meðgönguna í hverjum tíma
- Minnkar bjúg – betra blóðflæði
- Liðkandi fyrir allan líkamann
- Betri svefn
- Léttir á verkjum
- Betri andleg og líkamleg líðan eftir tímana
- Bætir svefn
- Get tekið æfingu þrátt fyrir að vera með verki/samdrætti
- Styrkir djúplæga vöðva (grindabotn ofl.), sem er minn veikleiki.
Fyrst var ég að æfa mikið sjálf og fannst gott að koma eftir mínar venjulegu æfingar og liðka mig til. Einnig ef ég var að taka hvíld að koma í sundið. Mér fannst æfingarnar heldur auðveldar enda vön að æfa mikið.
Mér fannst samt alltaf ótrúlega notalegt að hreyfa sig í vatninu. Allar hreyfingar verða svo miklu auðveldari. Mér fannst ég róa líkamann niður og svaf betur eftir að hafa farið í sundið.
Þegar æfingar eru gerðar í vatni þá notar maður mikið djúplæga vöðva. En það eru einmitt vöðvar sem ég þarf að þjálfa. Þeir halda líkamanum stöðugum og öllum hreyfingum. Það er mikilvægt að djúplæguvöðvarnir séu virkir og sérstaklega á meðgöngunni þegar líkamstaðan getur breyst þar sem þyngdarpunkturinn verður öðruvísi ofl.
Einnig er gott að vera í vatninu, allar hreyfingar verða mun léttari, maður verður léttur á ný.
Þegar ég var komin 35 vikur byrjaði ég skyndilega að fá stanslausa samdrætti sem hættu ekki við hvíld. Ég þurfti því skyndilega að hætta að vinna og þurfti fyrst að liggja bara 1. viku, næstu viku mátti ég sitja og svo mátti ég fara að hreyfa mig aftur. Núna eru göngutúrar (þegar ég get), meðgöngusund og meðgöngujóga hreyfingin sem ég geri. Þrátt fyrir að ég sé með stöðuga samdrætti get ég alltaf farið í meðgöngusund og hreyft mig í vatninu þar. Ég get ekki alltaf gert allt en þá eru kennaranir alltaf með einhverja aðra útgáfu á öllum æfingum ef þess þarf.
Það er líka frábært fyrir þær sem eru t.d með mikla grindarverki eða óþægindi að koma í meðgöngusundið. Hreyfingarnar eru bæði auðveldari í vatninu og kennaranir taka alltaf fram aðrar æfingar ef það er möguleiki á að það valdi óþægindum.
Mikið ofboðslega líður mér vel eftir sund tímana og koma blóðflæðinu af stað. Það er líka félagslegt að hitta hinar óléttu stelpurnar/konurnar. Við sitjum oft fyrir tímann og eftir og spjöllum saman um hvernig óléttan er og gefum hvor annari ráð og segjum skemmtilegar sögur. Það er oft meiri tími eftir hádegistímana að sitja og spjalla sem er notalegt þegar maður er hættur að vinna.
Einnig eru kennararnir alltaf tilbúnir að spjalla og svara spurningum eftir tímann ef maður vill fá ráð. Kennararnir eru fullir af fróðleik, þeir tala um bæði ráð og útskýra afhverju við erum að gera æfingarnar – hvað við erum að styrkja.
Í dag var ég í sundtíma og var mest að spjalla við eina sem er sett eftir 3 daga, ég sjálf eftir 5 daga og önnur eftir 7 daga. Allar erum við ákveðnar að halda áfram að mæta í tímana þangað til við förum á fæðingardeildina.
Ég fékk að prófa 4 vikur hjá þeim og deili minni reynslu á námskeiðinu í staðinn. Ég mæli hiklaust með þessum tímum. Tímarnir hentuðu mér mjög vel bæði þegar ég gat æft á fullu og líka þegar það er mjög takmarkað sem ég get gert.
Það er hægt að mæta í frían prufutíma, þá sendir maður póst á medgongusund@medgongusund.is. Það er svo hægt að kaupa 1, 4 eða 12 vikur í einu.
Tímarnir eru bæði í hádeginu og kvöldin. Ef þú hefur áhuga á að vita meira geturu skoðað heimasíðuna þeirra hér: Meðgöngusund
Ég elska að vera í vatninu, enn meira eftir ég var ólétt, meðfylgjandi mynd er tekin í Þjórsárlaug þegar ég var komin 27 vikur. Þar sem ég er ekki með neina mynd úr tímunum ákvað ég að láta þessa fylgja.