Kínóa grautur

Mig langaði að prófa öðruvísi graut (ekki chia eða hafragraut).
Ég prófaði að gera Kinóa graut, sem heppnaðist bara ágætlega. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir og út frá þeim fannst mér í raun að Kinoa grautur væri svipað og hafragrautur. Maður setur tvöfalt magn af vökva á móti fræjunum. Svo getur maður bætt við hverju sem er.
Ég komst að því þegar ég fór að elda grautinn að það tekur hinsvegar miklu lengri tíma að elda þessi fræ en hafra. Einnig er mjöööög mikilvægt að skola fræin vel, helst leggja þau í bleyti yfir nótt (jafnvel 2 nætur, skipta þá um vatn eftir einn dag). Í fyrstu tilraun gleymdi ég því og þá var alls ekki gott bragð af grautnum (mjög rammt).
En hvað er Kinóa fræ?
Þau eru til dæmis:
- Glúteinlaus
- Innihalda allar 8 amínósýrurnar
- Trefjarík
- Innihalda góðar fitursýrur
- Innihalda meðal annars járn, E vítamín og B vítamín.
- Hafa lágan sykurstuðul – gott fyrir þá sem eru viðkæmir fyrir blóðsykursveiflum.
- Innihalda kalk og magnesíum
Það er líka hægt að nota Kínóa fræ í stað hrísgrjóna, þá fræin soðin í 20 mínútur. Ég mæli með að setja smá olíu með til þess að þau verði ekki eins og einn klumpur.
Hér kemur mín uppskrift af Kínóa graut:
- 4dl kínóa (1 poki af H-berg Kinóa fræjum)
- 4 dl vatn
- 4 dl kókosmjólk (má nota aðra mjólk eða rjóma)
- 2-3 tsk kanill (ég elska kanil og set vel af honum)
- ca 1/2- 1 tsk af vanillu (má sleppa eða nota dropa)
Eftir að vera búin að láta grjónin liggja í bleyti í 2 daga sauð ég fræin í vatni. Bætti svo restinni við. Eftir 20 mín tók ég grautinn af hellunni og lét hann standa í pottinum þangað til grauturinn var orðinn þykkur og góður. Ég mátti ekki vera að því að bíða svo hann stóð í lengri tíma á eldavélinni. Mikilvægt að taka grautinn af heitu hellunni og hafa lok á pottinum.
Þegar grauturinn var tilbúinn þá bætti ég við
- Slatta af bláberjum ca 2-3 lúkum og hrærði saman.
- Að lokum setti ég kasjúhnetur og kakónibbur ofan á þegar grauturinn var kominn á diskinn.
Fyrir þá sem ekki vita eru kakónibbur muldar kakóbaunir. Það er bæði hægt að kaupa heilar baunir og muldar.
Að lokum:
- Grauturinn sem ég bjó til er 3-5 skammtar.
- Tekur 30-40 mín að elda.
- Hægt er að geyma grautinn í kæli í nokkra daga. Hann væri hægt að búa til á sunnudagskvöldi og borða í morgunmat í vikunni.
- Hægt að borða grautinn bæði kaldan og heitann.
- Tilvalinn morgunmatur.
- Ég borðaði þetta sjálf fyrir æfingar, þar sem þetta er orkuríkt og létt í magann.