Fjóla Signý

Don't Worry Be Happy

Home » Ég ber ábyrgðina

Ég ber ábyrgðina

Síðasta mótið á tímabilinu hjá mér var núna um helgina í Belgíu. Ég flaug til Amsterdam og tók lest þaðan til Antwerpen og til baka. Þetta var rosa góð og skemmtileg ferð. Þrátt fyrir að tíminn var ekki góður, hótelið var ekki beint hótel – aðstaðan spes, frekar heitt eða 30°C. Ég ætlaði mér að hlaupa hraðar en ég náði þó að vinna nokkrar stelpur sem hafa hlaupið hraðar en ég í ár. Ég veit ekki hvort það var tilviljun en það var enginn sem keppti í 400m grind sem var að bæta sig eða með ársbestan árangur fyrir utan Örnu Stefaníu sem vann og bætti unglinga íslandsmetið sitt 🙂

Haustin eru alltaf ákveðin tímamót þar sem ég skoða markmiðin mín og set mér ný. Ákveð hvernig ég sé næsta ár og svo gróflega næstu 4 árin. Ég ætla ekkert að fela það að ég er mjög svekkt yfir því að árangur sumarins sé ekki betri en hann var. Það verður þó ekki tekið af mér að ég á ársbesta árangur utanhúss í hástökki og 2. besta í 400m grind.

Vissulega er ég að koma til baka og vissi að ég yrði ekki í sama formi og svo að ég tognaði illa á fæti fyrir 6 vikum var ekki til að hjálpa til.  Ég get talað um „afsakanir“ afhverju árangurinn var ekki betri, væla útaf vefjagigt, útaf bílslysum ofl. ofl. En hvert kemur það mér? ekkert!

Mín reynsla er sú að ef ég ætla að komast áfram í einhverju verð ég að taka ábyrgð á aðstæðum. Ég ber vissulega ekki ábyrgð á því að einhver keyrði á mig, eða einhver sagði eitthvað við mig o.fl. Hins vegar eru þetta aðstæður sem ég lendi í og þá verð ég að gera mér grein fyrir því að ég ber fulla ábyrgð á hvernig ég bregst við og hvernig ég vinn mig úr aðstæðunum. Ætla ég að sitja og væla yfir þessu, horfa á allt sem er ósanngjarnt, það sem ég get ekki, það sem ég hefði getað gert eða eitthvað í fortíðinni. Ef ég geri það kemst ég ekkert áfram. Þetta getur verið erfitt, það er auðvelt að koma „sökinni“ á annan. Ástæða er ekki sama og afsökun.

Hvað ætla ég að gera í þessum aðstæðum? Jú, ég reyni að horfa á það sem ég get lært af og gert betur næst en umfram allt horfa á jákvæðu punktana sem hvetja mig áfram. Ég er svekkt yfir að ná ekki meiri hraða en hlakka til að fara að byggja mig upp. Ég finn leiðir hvernig ég get náð markmiðunum mínum. Til dæmis að æfa öðruvísi, skipta upp æfingum, borða rétt, hvíla mig og forgangsraða verkefnum. Ég hugsa um hvað ég get gert en ekki hvað ég get ekki gert.

Þó ég sé svekkt og ekki sátt ætla ég ekki að vera rosalega leið yfir því næstu vikur. Ekkert frekar en ég færi á stuttbuxum út í rigningu og kvarta yfir því að verða rennandi blaut. Ég reyni að axla ábyrgð að takast á við þær aðstæður sem ég er í. Ég fer í regnföt. Ef ég blotna samt í gegn læri ég að ég þarf betri regnföt næst þegar það kemur rigning.

Mér finnst gott að lesa bækur sem hjálpa manni enn frekar að skilja hvernig hlutirnir virka. Hvernig orsök og afleiðing hugsana geta haft mikil áhrif. Ég er nýlega búin að klára lesa bókina Hámarks Árangur eftir Brian Tracy og núna er ég að lesa The 7 Habits of Highly Effective People og er myndin hér til hliðar tekin úr þeirri bók.

Facebook Athugasemdir

Um mig

Nafn: Fjóla Signý

Stutt ágrip: Ég er sveitastelpa sunnan heiða en bý núna í Reykjavík. Ég æfi frjálsar að kappi og keppi fyrir umf. Selfoss. Mitt mottó að reyna að lifa eftir setningunni "don't worry be happy" eða "ekki hafa áhyggjur, vertu hamingjusamur" :)

Leave a Reply