Það er ekki alltaf dans á rósum
Að vera meiddur er ekki beint það skemmtilegasta í heimi. Ég hef líka verið svo ótrúlega óheppin að einhvern veginn er ég alltaf að lenda í einhverju, sem er líka mjög þreytandi. Hvernig væri að ég gæti bara verið laus við þetta vesen?
En meiðslin sem ég er að jafna mig á núna eru öðruvísi og reyna meira á andlegu hliðina en önnur meiðsli sem ég hef jafnað mig á. Því meiðslin eru ekki sjáanleg en eru útum allt. Fólk á auðveldara með að skilja meiðsli ef það sér gifs eða ef ég haltra eða eitthvað. Sjálf finnst mér erfitt að skilja þetta. Það er líka skrítið að einn daginn er allt í góðu, svo gerir maður kannski aðeins of mikið og þá er ekki aftur snúið. Hálsmeiðslin mín eru allavega þannig að verkurinn verður um allt bakið, svo er önnur hliðin verri, og verkurinn verður verri í herðablaði, öxl, háls, kjálka og höfuðverkur. Skemmtilegt! Ég get ekki sofið með kodda undir höfðinu heldur verð ég að hafa kodda sitthvoru megin við höfuðið svo það liggi beint. Allar hreyfingar eru óþæginlegar og vont að anda djúpt. Sem betur fer eru ekki allir dagar svona, það koma góðir dagar inn á milli. En þegar það eru heilu dagarnir sem eru svona verður allt mjög erfitt, maður verður svo líkamlega og andlega þreyttur. Gærdagurinn og í dag voru slæmir og mig langaði til að deila þessu með ykkur því auðvitað er þetta ekkert auðvelt. En þetta er ekki svo slæmt það er margt jákvætt!
Það er mjög gott að fóturinn brotnaði ekki þannig að ég get gert æfingar í sundlauginni. Það er alveg hellingur af æfingum sem ég get gert (á góðum dögum) þrátt fyrir að ég geti ekki hoppað, hlaupið og aðeins gert styrktaræfingar sem reyna ekki of mikið á hálsinn og allar æfingar verða að vera án lóða. Ég er núna komin til Svíþjóðar þar sem ég get farið í höllina og æft þegar ég vil. Núna æfi ég í raun mun fleiri klst en ég gerði áður. Þegar fólk spyr „hvað æfiru oft í viku?“ það er kannski betra að spyrja hversu erfiðar eru æfingar og hversu marga klst æfir þú? Núna er ég í höllinni ca 6-7 klst á dag. Fyrst geri ég styrktaræfingar í 2 klst, síðan hvíla í 1-2 klst næsta æfing er aðal æfingin þar sem ég annaðhvort hjóla eða hlaupa í vatni tekur kannski 1-2 klst, hvíli í 30-60mín og geri svo liðkandi/teygjur/rúlla í 1 klst.
Til að byrja með er erfitt að átta sig á hvað maður á að gera þegar það er búið að útiloka ýmislegt, bæði fætur og eftribúkur í lamasessi. En það er ALLTAF eitthvað sem þú getur gert, stundum þarf maður að vera með smá ímyndurnarafl til að finna upp á nýjum æfingum.
Ekki hugsa um það sem þú getur ekki gert, hugsaðu um allt það sem þú getur gert!