Fjóla Signý

Don't Worry Be Happy

Home » Önnur fæðingasaga.. erfitt að fá dripp

Önnur fæðingasaga.. erfitt að fá dripp

Á báðum meðgöngunum mínum fannst mér gaman og góður undirbúningur að lesa fæðingasögur. Ég deildi minni sögu eftir fyrstu fæðingu og ætlaði að gera það líka með þessa. Þessi var svo allt öðruvísi í stuttu máli endaði með að ég fékk dripp til að auka hríðarnar og það fór ekki vel í mig. Þessi reynsla fannst mér erfið og mér hefur fundist erfitt að skrifa og deila þessari sögu.
Í gær las ég að ein af hverri 3 konum upplifa fæðinguna sína erfiða og þyrftu að vinna úr reynslunni. Hinsvegar eru bara 1 af hverri 10 af þessum konum sem deila sinni reynslu og tjá sig. Þetta hvatti mig enn frekar að deila minni reynslu.
Ég var alls ekki með neinar væntingar um hvernig fæðingin yrði að vera þó ég var auðvitað búin að hugsa mér hitt og þetta. Besta ráð sem ég hef fengið er að ekki reikna með neinu, hvort góðu né slæmu.
Það sem kom mér á óvart og situr í mér hveru illa mér leið að fá drippið.
Þó fæðingin hafi ekki verið neitt ofbeldi ýfði þetta upp gömul andleg sár. Hvernig mér leið líkamlega og hræðsla á sama tíma í fæðingunni kveikti á áfallastreitunni og kvíða – þetta var mikill trigger eftir nauðgun sem ég lennti í fyrir 15 árum. Ég hef átt erfitt að sýna mér skilning því þetta fór allt vel. Einnig mér finnst mögnuð upplifun að fæða barn og vil ekki tengja neitt neikvætt við það.
Þar sem ég hef unnið í mörg ár með sálfræðingum þekkti ég vel einkennin og varð að viðurkenna að þetta var erfitt og ég þyrfti að vinna úr þessu. Ég þurfti nokkur samtöl með fagaðilum og mér líður miklu betur. Loksins er ég tilbúin til að deila minni reynslu. Tæpum 3 mánuðum eftir ég átti.

Hér kemur öll sagan.

Meðgangan var erfið, alveg frá 5 viku þegar ég fór með sjúkrabíl á bráðamóttökuna. Meðgang er önnur saga en alla meðgönguna var ég veik og/eða með mikla verki (fyrir utan viku 25-29 – þá leið mér vel).
Það var alltaf eitthvað en ég náði þó að jafna mig og ég mátti eiga í Björkinni. Ég sagði alla meðgönguna að ég vildi vera í Reykjavík því ég væri hrædd um að ég þyrfti aðstoð eftir fæðinguna þó það væri ekkert að sem læknar eða aðir fagaðilar vildu fylgjast með mér í eða eftir fæðingu. Ég sagði líka að mér þætti líklegt ég færi af stað þegar ég mundi klára einhver vorverk í sveitinni, ef það gerðist ekki þá mundi ég vilja að hún kæmi 1. maí.
Merkilegt að allt þetta rættist.

Sunnudaginn 24. april kláruðum við mikilvægasta vorverkið að planta út frærófunum. Um kvöldið þegar við fórum að sofa byrjaði ég að fá mjög harða og reglulega samdrætti. Ég var búin að vera með mikila verki og samdrætti alla meðgönguna en þetta var það reglulegir og harðir samdrættir að ég var viss um að við ættum að drífa okkur í Björkina þegar ég var búin að vera svona í 1 klst. Þegar við mætum svo í Björkina dettur allt niður. En þarna byrjaði klárlega útvíkkunin en stoppaði.
Ég hélt mínu striki þessa viku og tók mína síðustu sundæfingu fimmtudaginn 28. apríl. En ég fann að ég var með það mikla samdrætti og extra þung á mér að ég synti bara 500m.
Sunnudaginn 1. maí, óska dagurinn minn, vakna ég um morgunin og finnst eins og legvatnið sé að leka.
Ég ákvað að prófa að sitja á wc og hósta og þá láku dropar (án þess að ég væri að pissa). Ég hringi í Elvu ljósmóðir í Björkinni. Mikið ofboðslega er ég fegin að ég gat nýtt þeirra þjónustu og geta alltaf hringt beint í þær. Ég vissi að stelpan væri óskorðuð svo ég var ekki viss hvort ég ætti að liggja eða hvað ég ætti að gera.
Þarna var kl. 9 og Elva segir „ef það er bara að dropa máttu alveg vera á ferðinni en heyrumst aftur um hálf tólf, tólf og tökum stöðuna aftur þá, en þú heyrir í mér ef það breytist eitthvað“..
Ég svara „já.. við ætluðum eigilega að fara í bröns kl 11.30“ tengdapabbi var sem sagt 70 ára þennan dag. Elva segir þá „okay, heyrumst aftur kl 11 og ef þú ert bara svona er allt í lagi að fara í bröns“
Ég fer þá að þvo þvott og taka aðeins til. Ég var með reglulega samdrætti og vonda verki en ekkert öðruvísi en ég var alltaf.
Klukkan 11 er ég með samdrátt og ég sest niður í rúmið á meðan ég bið að hann gangi yfir en þá finn ég hvell og ég missi vatnið. Ég var búin að segja við Jón að það gerist bara í 8% tilfella að konur missa vatnið áður en fæðing hefst og ef það gerist er það ekki eins og í bíómyndunum, það er yfirleitt bara smá vatn. Þegar ég missti vatnið var það meira en í bíó myndunum, það fór allt á flot og ég varð öll rennandi blaut. Elva hringir í mig á sama tíma og ég segi henni að það sé allt á floti og vatnið sé farið. Hún ákveður þá að bruna til mín og er komin 15 mín seinna. Alltaf kom meira vatn með hverjum samdrætti. Ég bað Jón um að rétta mér fleiri handklæði og hann svaraði „þú ert með öll handklæðin“ haha.

Eftir vatnið fór voru verkirnir ekki eins slæmir með samdráttunum. Elva finnur að kollurinn er ennþá alveg óskorðaður og ég þarf því að fá sjúkrabíl og láta skoða mig upp á LSH. Það koma 2 bílar á bláum ljósum, þrátt fyrir að Elva hafi verið mjög róleg og sagt að það væri ekkert akút, en þetta er víst einhver regla hjá þeim.
Þegar ég kem á LSH er ég beðin um að pissa, það hjálpi til að búa til pláss fyrir kollinn að komast niður. Ekkert mál segi ég svo bætti ljósan við „en þú mátt ekki sitja“… „öööö.. á ég að pissa liggjandi?“ spyr ég undrandi. Já segir hún. Það var ný upplifun, það er líkamlega erfitt að pissa og vera liggjandi en það hafðist. Þá er ég skoðuð og hún segir „þú ert komin með 8 í útvíkkun“… ég var ekki alveg að skilja „hvað meinaru að ég sé með 8 í útvíkkun??“ mér leið ekkert eins og ég væri í fæðingu. Verkirnir voru miklu minni eftir að vatnið fór en ég var jú með reglulega samdrætti en það var búið að vera þannig í margar vikur.
Ég fékk grænt ljós á að fara í Björkina og þar áttum við notalegan dag með Elvu og Hrafnhildi ljósmæðrum. Ég fór í bað, ég gerði æfingar, ég gerði teygjur, ég dansaði, ég hoppaði á boltaum, ég lagði mig, ég fékk nálar en alltaf var staðan eins. Kollurinn hátt uppi, 8 í útvíkkun, samdrættir en ekki nógu harðir.
Ég ákvað þá kl 18 að við mundum fara á LSH og ég skildi fá dripp til að hjálpa til. Ég þyrfti bara aðeins að ýta á eftir og þá mundu hríðarnar verða sterkari og kollurinn kæmist niður, þá gæti ég klárað þetta. Mig langaði ekki að vera alla nóttina með lekandi legvatn og sofa illa og svo yrði orðin stress að hún yrði að koma út undir morgun. Þar sem það þarf ekki að grípa inn í fyrr en það er liðin sólahringur frá því að vatnið fer. Eftir á mun ég ekki biðja um að fá dripp aftur, ekki nema að það virkilega þurfi.
Við vorum á LSH og þar voru ljósmæðurnar líka mjög yndælar og reyndu að gera allt til þess að hafa það huggulegt á stofunni. Ég var mjög jákvæð og til í þetta. Ég spyr svo áður en ég byrja að fá drippið hvort það sé einhver önnur áhrif en að fá sterkari hríðar. Ljósmóðirinn sagði að það ætti ekki að vera, en það væri talað um að það væru harðari og meiri verkir með að fá dripp. Okay, ég var alveg til í það. Ég er búin að vera oft rosa verkjuð og alveg til í að klára þetta.


Ég fékk fyrst 6ml, ég fann strax að ég fékk meiri samdrætti en ekki eins og ég væri í fæðingu. 30 mín seinna var aukið í 12 ml… 30 mín seinna var aukið í 18 ml og ég fer í bað. Baðið var samt svo lítið og/eða ég hávaxin svo ég var ekki mjög lengi í baði. Næst var aukið upp í 30 ml og þá leit ég á klukkuna sem var 22.04 .. og ég sagði „jæja nú líður mér eins og ég sé í fæðingu.. nú er þetta að gerast“. Þetta var síðasta setningin sem ég gat sagt þangað til stelpan kom í heiminn.
Hríðarnar voru jú miklu haraðir og verri. Það versta er að það var engin pása á milli eins er náttúrulega. Þá kemur pása inn á milli og maður nær andanum. Það kemur yfir mann mikil þreyta og sælu tilfinning í auknablik áður en næsta hríð kemur. Þarna var ekkert slíkt, bara næsta og næsta hríð. Sjúklegir verkir. Þær létu mig prófa að breyta um stöðu og það var enn verra og ég ældi öllu sem ég gat af sársauka. Mín viðbörgð við þessum sársauka og stjórnleysi var að „yfirgefa“  líkamann, ég gat ekki haft augun opin, ég gat ekki talað nema sagt inn á milli eitt og eitt orð. Ég gat ekki sagt hvað ég vildi eða vildi ekki ég gat sagt já/nei ef ég var spurð á einhverju. Þetta var allt svo stjórnlaust. Þetta ástand minnti mig á ofbeldið, máttleysið, geta ekki talað og hræðslan. Þarna var ég hrædd um stelpuna mína, að hún kæmit ekki út. Eftir á er ég búin að fá útskýringar á því að hormónin sem hellast yfir mann í hríðum hafa áhrif á framheilan og geta gert það að verkum að maður á erfitt með að tjá sig eins og ég upplifið.

Ljósurnar voru yndislegar og töluðu við mig, hvöttu mig áfram og leiðbeintu mér hvað ég ætti að gera. Jón Steinar var rosa mikill stuðningur og gerði allt til að hvetja mig og láta mér líða betur.
Ljósurnar reyndu að láta mig halda í og toga en ég var ekki með neinn kraft líkaminn var máttlaus ég reyndi. Ég fann hvað stelpan var stór, ég sagði „hún er of stór“ ég var hrædd um að hún væri of stór og hún kæmist ekki út. Ég var hrædd um að þetta færi illa. Ég hugsaði um að fá mænudeyfingu en ég vissi að þetta ætti að taka stuttan tíma því ég var komin með 8 í útvíkkun.
Ég vissi ekkert hvað tímanum leið.. enda gat ég hvorki talað né haft opin augu. Ég var alveg búin ég gat ekki meir.. ég gat þetta ekki og náði að segja „ég vil fá mænudeyfingu“ ljósurnar sögðu þá að það væri mjög stutt í að ég gæti að farið að rembast og ætti að reyna aðeins lengur.
Einhvern timan man ég þegar þær sögðu að kollurinn væri kominn niður.. LOKSINS..
Þær sögðu hvenær ég ætti að rembast og hvenær ekki. Reyndu að hjálpa mér að hafa stjórn á önduninni.. ég hlustaði og mér fannst eins og ég gæti ekki gert neitt sem þær voru að segja en eftir á sögðu þær að ég hefði fylgt þeirra leiðbeiningum mjög vel.
Önnur ljósmóðirin segir „höfið er að koma finndu með hendinni“ og létu máttlausu hendina mína á kollinn.. loksins var hún að koma, þær tóku í hendurnar mínar og sögðu, taktu sjálf á móti henni sem ég gerði. Ég öskur grenjaði þegar ég tók á móti henni og hélt á henni. Rússibaninn af öllum tilfingunum var rosalegur.
Grengjandi hélt ég á henni og reyndi að ná áttum. Ég spurði svo hvort ég hefði misst rosalega mikið blóð því mér leið eins og ég væri að klofna/fara í sundur.. „nei alls ekki.. bara eðlilegt 200-400ml“ svöruðu þær.. ég var mjög hissa „nú… en þarf ekki að sauma mikið?“spurði ég næst.. en einhvernvegin rifnaði ég ekkert.. ég skil ekkert í því þar sem barnið var 18 merkur eða 4.490 kr og 53 cm. Algjör bolla, ljósurnar voru líka hissa þegar þær sáu hvað hún var stór. Ég náði 1. maí, hún fæddist 23.44.. þetta tók bara 1.5 klst samt var ég svo andlega og líkamlega búin eftir þetta. Það er reyndar ekkert auðveldara ef þetta gerist svona hratt segja ljósurnar.

Þegar ég stóð upp 1 klst síðar til að pissa fékk ég mikinn verk í hægri síðu. Mig verkjaði líka rosalega í lífbeinið. Ég gat ekki gengið útaf lífbeininu og þurfti að keyra mig á sængulegudeildina í hjólastól. Daginn eftir þegar ég stend upp til að pissa um 7 um morguninn er verkurinn enn verri í síðunni. Eftir ég pissa er verkurinn það hræðilegur að ég get ekki lengur talað, sest á rúmið mitt og hristist öll af verkjum og tárin hrynja. Jón kallar á aðstoð og ég fæ morfín skild verkjalyf. Eftir rannsóknir er talið líklegt að ég hafi verið með nýrnasteina sem hafa verið að ganga niður. Næstu 2 vikur fékk ég verki eftir ég pissaði, mest eftir morgunpissið. Þetta lagaðist svo af sjálfum sér.

Þar sem ég rifnaði ekkert var ég fljót að jafna mig líkamlega. Stelpan min þyngdist vel, allt gekk vel. Ég hélt því að ég mundi bara jafna mig á þessari reynslu. Þetta tók stuttan tíma og allt er í lagi. Mér finnst pirrandi að þetta dripp sitji í mér, ég á erfitt með að sýna mér skilning. Ég veit að þær sem hafa lent í kynferðislegu ofbeldi geta átt erfitt með fæðingar en þar sem ég var búin að fara í gengum aðra fæðingu fyrir 5 árum og leið mjög vel á eftir. Þá fannst mér að fæðing nr 2 ætti ekki að triggera mig.
Triggerinn hjá mér er að ég missti alla stjórn. Líkamlega var ég máttlaus, gat ekki haft augun opin, gat ekki talað.. nákvæmlega eins og þegar ég lenti í ofbeldinu.. 15 ár síðan og ég er búin að vinna svo mikið með þetta. Fyrst í 3 ár eftir þetta gerðist og svo aftur í 2018-2021… Nú er ég aftur mætt í Stígamót til að vinna úr þessu. Ég er mjög meðvituð um einkenni af áfallastreitu og kvíða í óeðlilegu magni. Ég er líka búin að ræða þetta við heimaþjónustuna, ljósmóður og ungbarnaverndina því ég finn að ég þarf að vinna aðeins úr þessu.

Mér líður miklu betur núna og ég deili þessari reynslu með von um að það hjálpi mögulega einhverri annarri að undirbúa sig eða vinna úr sinni reynslu.

Þessa mynd tók ég af okkur mæðgum í dag sjúkraþjálfun. Lífbeinið er orðin mun betra og styttist í að ég geti vonandi farið að hlaupa.

Facebook Athugasemdir

Um mig

Nafn: Fjóla Signý

Stutt ágrip: Ég er sveitastelpa sunnan heiða en bý núna í Reykjavík. Ég æfi frjálsar að kappi og keppi fyrir umf. Selfoss. Mitt mottó að reyna að lifa eftir setningunni "don't worry be happy" eða "ekki hafa áhyggjur, vertu hamingjusamur" :)

Leave a Reply