Fjóla Signý

Don't Worry Be Happy

Home » Félagsfælni

Félagsfælni

Hnútur í maganum, mér er óglatt, kökkur í hálsinum, ég svitna í lófunum – ég svitna allstaðar. Ég reyni að anda djúpt en það gengur ekki, eins og ég sé með hikksta loftið fer ekki lengra nem rétt efst í hálsinn. Axlirnar lyftast upp þegar ég reyni að draga andann. Mig langar að hverfa, þarf ég að fá mat? væri ekki miklu einfaldara að fara bara upp í rúm og draga sængina upp fyrir haus…

„HALLÓ!! Fjóla! er einhver heima? ætlaru að hringja eða ekki???“ … sögðu bræður mínir við mig… ég er sirka 8-10 ára.. ef ég hringi ekki og panta pizzuna þá fæ ég engan mat sögðu þeir.. ég vissi að þeir meintu það. Ég var mjög svöng enda búin að borða lítið í dag og ný komin úr fjósinu þar sem ég var að erfiða líkamlega.

„Viltu pizzu eða ekki?..“ þögn….. það er svo erfitt að tala, það er svo erfitt að koma upp hljóði.. ég tek tólið.. mig langar til að gráta. Ég roðna rosalega mikið.

„geturu ekki hringt?“ hæðnislegur tónn … „jú“ svara ég stuttlega og þver.. ég fæ aðstoð við að ýta á rétta tölur, enda titra ég svo mikið að ég hefði eflaust ekki hitt á tölurnar. Milljón hugsanir þjóta um hausinn, ég segi örugglega eitthvað vitlaust, þeir eiga eftir að hlæja af mér, sá sem svarar fer líka að hlæja, ég er kann ekkert – ekki einu sinni að panta pizzu….. ég er leið og skil ekki afhverju ég er svona léleg í öllu og get ekki neitt.
„Pizza 67 góða kvöldið, hvernig get ég aðstoðað?“ … þögn.. „halló, góða kvöldið, get ég aðstoðað“ .. strákarnir ýta í mig og ég hrekk við „j-já, sama og venjulega.. 16″ Fl-Flower Power sent á Stóru Sandvík 5“ … Við pöntuðum oft pizzu og alltaf það sama, þetta var ekki flókið símtal en jesús minn hvað þetta var erfitt.

Ég var með mikla félagsfælni sem barn og unglingur. Ég gat ekki talað við ókunnuga, þorði ekki fara neitt (þótt mig langaði til), það var rosa erfitt að fara í skólann, æfingar ofl. Tala nú ekki um ef það var afleysingar kennari/þjálfari. Mér fannst vont að líða alltaf svona, þetta er svo yfirþyrmandi og kæfandi. Ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta núna er að í allt í einu í vikunni áttaði ég mig á hvað ég er alveg laus við fælnina í dag.

Á 6 ára afmælisdaginn og félagsfælnin að byrja.
Á 6 ára afmælisdaginn og félagsfælnin að byrja.

Ég áttaði mig á þessu þegar ég var með erlent vörumerki sem mig langar að vinna með. Ég fann út við hvern ég ætti að tala og ég vildi hringja frekar en að senda fyrst tölvupóst. Ef ég sendi tölvupóst er algjörlega óvíst hvort viðkomandi mundi lesa tölvupóstinn ef svo þá ólíklegt að viðkomandi lesi allt sem ég skrifa. Ég heyri heldur ekki tóninn og fyrstu viðbörgð við hugmyndunum mínum sem skiptir miklu máli. Ég vildi hringja og svo senda tölvupóst, mér fannst þetta alveg augljóst að þetta yrði ferlið. Ekkert mál. Ég hringdi, símtalið gekk rosa vel og vonandi erum við að fara að vinna saman. Smá munur á mér miða við fyrri söguna. Samstarfsfélagi sem var á staðnum var pínu hissa á framganginum í mér, að ég skildi bara þora þessu. Þá fattaði ég allt í einu að aldrei hefði mig órað að ég mundi geta þetta. Hringja blákalt símtal í útlending sem ég hef aldrei hitt eða talað við áður.

Þetta gerðist ekki á einum degi, ég er búin að vera að vinna mikið og lengi í mörgum þáttum til að losna við þessa fælni. Ég man fyrir 9 árum síðan þegar ég átti að hringja í sænska þjálfarann minn í fyrsta skiptið. Allan daginn svitnaði ég endalaust, gat ekki setið kyrr og hafði enga einbeitingu í skólanum. Þegar ég kom heim og komið að símtalinu gekk ég milljón ferðir fram og til baka. Ég var að æfa símtalið á meðan ég þrammaði gólfin, hvað ég ætlaði að segja. Ég var búin að vera í samskiptum í gegnum tölvupóst en að hringja var allt annað. Ég gat alltaf látið Jón lesa yfir allt sem ég sendi, en núna þurfti ég að tala, ég get ekki spólað til baka og þurrkað út ef ég segi eitthvað asnalegt og heimskulegt.

Jón Steinar reyndi að róa mig og stappa í mig stálinu. Á endanum lét ég verða að því að hringja. Þá virkaði ekki að hringja í númerið sem ég var með og ég fór að hlæja.. búin að eyða heilum degi og rúmlega það í stress og þvælu fyrir bókstaflega ekkert. Það var mun auðveldara fyrir mig að hringja í 2. skipti – og það gekk bara ágætlega. Þó ég vissulega svitnaði, roðnaði og stamaði inn á milli.

Eflaust eru einhverjir sem þekkja mig hiss að heyra að ég hafi verið með svona mikla félagsfælni. Sérstaklega þar sem ég þróaði mitt varnarviðbragð að þegar mér leið illa, í aðstæðum sem kölluðu fram kvíða, þá talaði ég endalaust og yfirleitt með trúðslæti. Ef ég er trúður þá á ég að vera asnaleg og þá á fólk að hlæja af mér. Svipað eins og ég gretti mig á öllum myndum sem voru teknar af mér ca frá 8 til 13 ára aldurs því ef ég gretti mig þá er ég asnaleg og ljót – það er miklu betra heldur en að vera venjuleg en samt asnaleg og ljót.

Þó ég sé búin að vinna mig út úr þessari fælni er auðvelt fyrir mig að fara inn í þessa tilfinningar. Ég get verið of meðvirk og vorkennt fólki sem upplifir þessar tilfinningar – en vorkun skilar engum neitt. Ég á að sýna skilning og styðja viðkomandi að komast í gegnum aðstæðurnar, það styrkir viðkomandi. Hjálpar engum ef ég tek á mig að afgreiða það sem hinum finnst óyfirstíganlegt. Ef þú getur ekki hringt er ekkert betra að ég geri það fyrir þig.

Ég ræddi þetta líka við systur mína þegar við vorum að vinna í rófunum í vikunni. Við tókum allskonar dæmi um fólk sem getur ekki hringt, pantað tíma í klippingu, læknis eða hvað sem það er. Mér fannst til fyrirmyndar þegar hún talaði um að hún passaði sig á að láta börnin sín hringja allt sem þú þurftu að hringja (biðja að koma að leika, panta tíma i klippingu ofl.). Það er mikilvægt að æfa sig í þessu alltaf, líka að koma fram fyrir framan aðra. Tómstundir ýta líka undir það þegar þú þarft að koma fram fyrir aðra, spila á hljóðfæri, keppa í íþróttum ofl. Fyrst er þetta erfitt og yfirþyrmandi en svo verður þetta auðveldara – alveg eins og allar æfingar sem maður gerir.

Mig langaði til þess að skrifa mína sögu í stuttu máli því það eru eflaust aðrir sem leita á netinu hvað skal gera – þora ekki að hringja eða tala við einhvern. Ég mundi þó alltaf mæla með því að tala við fagaðila, ég tók sjálf ákvörðun um að þetta ásamt „lífshræðslu“ var að hefta mig rosa mikið – ég vildi ekki vera svona. Ég var ss. alltaf hrædd um að deyja, gat ekki farið í lyftur, sjúklega lofthrædd (fór ekki í 10. bekkjarferðalagið því það var fjallganga og treysti mér ekki), grenjaði úr mér augun þegar ég fór í flug – þó það væri bara frá Bakka yfir til eyja (5 mín. flug) og svona mætti lengi telja. Hvað er gaman að líða alltaf svona? hvað er það að gera fyrir mig? ef ég er að fara að deyja þá hjálpar ekkert að grenja yfir því.

Langar mig að vera alltaf heima, sjá aldrei neitt af heiminum og upplifa aldrei neitt nýtt? nei ég var ekki til í það.

Ég held að það sé takmarkaður áhugi að lesa meira um mína upplifun. Ég vil bara segja, ég hef verið þarna og það er ömurlegt! það er hægt að breyta þessu en það tekur langan tíma. Ég er búin að vinna í nokkur ár að hringja köld símtöl og selja þeim einhverja hugmynd sem ég er með. Mér finnst ekkert mál að tala við ókunnuga í dag, í raun finnst mér það mjög skemmtilegt. Gaman að tala við nýtt fólk.

Facebook Athugasemdir

Um mig

Nafn: Fjóla Signý

Stutt ágrip: Ég er sveitastelpa sunnan heiða en bý núna í Reykjavík. Ég æfi frjálsar að kappi og keppi fyrir umf. Selfoss. Mitt mottó að reyna að lifa eftir setningunni "don't worry be happy" eða "ekki hafa áhyggjur, vertu hamingjusamur" :)

Leave a Reply