Á Tenerife í æfingabúðum
Í gær lenti ég á Tenerife ásamt öðrum æfingafélögum. Hér ætlum við að vera í 14 daga að æfa í sólinni.
Það er svo æðislegt að fara í æfingabúðir. Það er ótrúlega peppandi og maður kemur fullur af eldmóð til baka.
Í æfingabúðum er maður bara að hugsa um íþróttina. Rútínan flesta daga er vakna-borða-æfa-borða-hvíla/sólbað-æfa-borða-sturta-sofa. Svo hefst annar eins dagur. Þetta gæti ekki verið betra. Maður þarf ekki einu sinni að hugsa um að þrífa og elda mat, allt gert fyrir mann.
Það var einmitt í æfingabúðum 2009 þegar ég var í sólbaði milli æfinga og var að hlusta á lagið „Don’t worry be happy“ að ég settist upp og sagði upp úr þurru „Okay, ég ætla ekki að vinna í álverinu í sumar – ég ætla að einbeita mér af frjálsum og ég ætla að komast í landsliðið“. Ég stóð við það 🙂
Þetta var stuttu fyrir sumarið og mörgum fannst ég vera klikkuð að hafna þessari vel launuðu vinnu. En ég áttaði mig á því að æfa frjálsar, vera ekki að hugsa um neitt annað er það sem ég vildi. Mér er sama ef ég þarf að sleppa að kaupa mér buxur því ég á ekki pening eða eitthvað annað. Eftir þetta hef ég reynt að lifa eftir þessu mottói – Don’t worry be happy, eða ekki hafa áhyggjur – vertu hamingjusamur.
Njóttu lífsins, ekki eyða tímanum í að gera eitthvað sem þér finnst vera leiðinlegt. Ef þú vilt eitthvað nógu mikið finnur þú lausn til að láta það gerast 🙂
Ég reyni að vera dugleg að setja inn myndir á Snapchat og Instagram fyrir þá sem vilja fylgjast með þá heiti ég á báðum aðgöngum „fjolasigny.“ Það er hinsvegar afskaplega lélegt net, nánast ómögulegt en reyni að senda þegar ég næ tengingu. Þannig stundum koma snöpp og myndir í vitlausri tímaröð.
Læt eina mynd fylgja frá morgunæfingunni: