Ekki láta mótlæti stöðva þig!
Á föstudaginn fór ég til læknis á læknavaktina á heilsugæslunni þar sem ég var búin að vera veik í marga daga. Ég var nú ekki að nenna að fara til læknis, fannst það óþarfi en fór samt. Í raun var ég pínu fegin að fara út úr húsi 🙂
Nema hvað, ég lendi aftur á sama lækni og hin 2 skiptin sem ég hef farið á þessa heilsugæslu. Sá sem fullyrti að ég væri með kviðslit og mætti ekki æfa í rúmt ár. Seinna skiptið tók hann fyrir það að hann hefði sagt það og þá áttaði ég mig á að ég ætti ekki að treysta 100% því sem hann segir.
Allt er þegar þrennt er, þessi þriðja heimsókn var pínu fáránleg. Ég kem inn með verk í lungum, hálsi og eyrum en umræðan var meira um vefjagigt, frjálsar og kviðinn á mér. Hann vildi meina:
- Vefjagigt sé ekki til heldur væri það geðsýki/geðsjúkdómur. Þar af leiðandi væri ég ekki með vefjagigt. Hann vildi meina að allar þessar rannsóknir og niðurstöður væru ekki áreiðanlegar og ekki að marka. Ég ætti ekki að stimpla mig með þessu og passa mig á í framtíðinni að tala ekki um það – því þá stimplar fólk mig líka.
- Það væri óraunhæft að ná heimsklassa árangri á Íslandi í frjálsum. Til þess þyrfti maður að fara út. Það eru engir þjálfarar eða teymi sem sinna manni almennilega á Íslandi. Ég mundi sjá eftir öllum tíma og orku sem ég er að gefa í frjálsar. Einnig þarf að nota lyf til þess að geta eiga séns í þá bestu.
- Ég hefði átt/á að láta skera upp kviðinn á mér til að skoða hvað sé í gangi, þá sést hvert vandamálið er.
Ég reyndi að útskýra fyrir honum og svara þessum fullyrðingum þar sem ég er ekki sammála. Ég mun t.d aldrei sjá eftir tíma sem ég eyði í frjálsar því íþróttin gefur mér meira en ég gef henni. Ég reyndi að beina erendi mínu núna sem voru veikindin mín ég fékk hann til að skoða mig aðeins.
Hann hlustaði á lungun og sagði „allt í góðu, hefuru verið með astma?“
Ég „nei?“
Hann „en hefuru notað púst?“
Ég „nei..?
Hann „en hefuru notað einhvern tíma púst“
Ég: „ööö, nei ekki svo ég muni“
… svo talaði hann um e-ð annað.. og lungun ekkert rædd meir.. var eitthvað aukahljóð í lungunum á mér sem líktist astma?
Svo þegar hann skoðaði hálsinn. Gekk að mér með svona spýtu og ljós og skoðaði og sagði svo glottandi „þú borðar svolítið að sælgæti..?“
Ég „nei“
Hann „ert svolítið í sætindunum“
Ég „nei, ekki mikið“
Hann „en ert búinn að vera borða núna“
Ég „nei! ég fékk mér síðast nammi fyrir viku, ég er bara búin að vera heima hjá mér lasin ekki að borða nammi eða sætindi“
Hann „já, þetta hefur þá bara með veikindin að gera“
Ég (pínu pirruð á endalausum fullyrðingum frá honum sem eru ekki rétt) „og hvað var það sem þú sást sem þú hélst að væri útaf nammi?
Hann sagði eitthvað nafn sem ég skildi ekki, ég spurði því hvað það væri. Hann svaraði með álíka fræðiheiti svo ég spurði aftur hvað það væri. Þá endurtók hann bæði nöfnin. Ég svaraði „já, geturu sagt mér það á íslensku hvað það er?“
Hann „það er sveppasýking sem þrífst á sykri, þessvegna hélt ég að þú hefðir verið að borða mikinn sykur. En kemur líka stundum ef maður er lasinn.“
Fleira var ekki sagt, ekkert að og ég var frekar pirruð þegar ég fór. Ég er að deila þessu með ykkur til að benda á að hvort sem það eru læknar eða einhverjir aðrir þá á maður ekki að láta ókunnugt fólk draga sig niður. Hver hefur sína skoðun á hlutunum gott og vel, en þessi læknir var ekki beint fagmannlegur að láta sína skoðun í ljós. Við vorum ekki æst þegar við töluðum en algjörlega ósammála þangað til ég sagði „það þýðir ekkert fyrir mig að ræða þetta við þig þar sem þú ert algjörlega fastur á þinni skoðun.“
Hvorki þessi læknir né einhver annar ákveður fyrir mig hvað ég get gert. Fólk dæmir annað fólk og fullyrðir hvernig það er og hvað það getur. Það veit ekki betur. Stundum er best að loka á samræður eftir að maður hefur sagt sína skoðun og rökum og viðkomandi er engu nær um þína hlið eða samþykkir það sem þú segir.
Ég er ekki að fara að taka þátt í fordómum gagnvart vefjagigt og neita því að ég sé með þennan sjúkdóm. Ég skil að það getur verið neikvætt fyrir fólk að fá einhverja sjúkdómsgreiningu eða aðra greiningu því það á það stundum til að vorkenna sér fyrir vikið. Gefast upp og kenna sjúkdóminum um allt. Ástæða er ekki sama og afsökun! Að vera með vefjagigt er eins og hlaupa spretthlaup í stígvélum en ekki spretthlaupsskóm. Það er miklu erfiðara en ekki ómögulegt. Það skaðar mig ekki að gera mér grein fyrir að ég sé í stígvélum og átta mig á að þetta verður erfitt. Það getur hinsvegar skaðað mig ef ég segi bara „get ekki, ég er ekki í spretthlaupsskóm.“
Ég get víst æft hér heima og náð árangri. Ég er sammála að aðstæður eru ekki þær bestu þegar þjálfarar vinna í hlutastörfum og maður æfir á kvöldin. Það töluverður kosntaður og lítið um peninga. Ég elska að fara á æfingar og keppni hitta allar. Upplifa kraftinn og spennuna sem fylgir íþróttinni. Finna fyrir að maður sé að styrkjast. Tilfiningin þegar maður jafnar sig eftir erfiðan sprett. Ég mun aldrei sjá eftir þessum tíma.
Það er alltaf fólk sem segir að það sé „raunsætt“ en það er yfirleitt annað orð yfir að vera neikvæður.
Að lokum vil ég nefna að ég er búin að
finna skjal sem ég get fyllt út og sent kvörtun á læknaembættið.